Reykjanesviti

Helstu lykiltölur

Tekjur af smásölu aukast

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jókst um 1% á milli ára og er alls 2.774 m. kr. samanborið við 2.738 m.kr. árið 2014. Rekstrartekjur lækkuðu um 130 milljónir á milli ára en rekstrarkostnaður lækkaði einnig um 252 milljónir. Bæði tekjur og gjöld drógust saman um 723 milljónir, vegna flutnings starfsmanna til HS Veitna sem eingöngu hafa þjónað HS Veitum. Sé horft fram hjá þessari tilfærslu aukast tekjur um 593 m.kr. á milli ára, sér í lagi vegna aukinnar sölu á smásölumarkaði.

EBITDA jókst um 36 milljónir króna

EBITDA 2015

2.77 millj.

EBITDA eykst um 36 milljónir á milli ára og er alls um 2.774 ma.kr. 2015 en var 2.738 m.kr. árið 2014.

EBITDA 2010 - 2015

Rekstrartekjur og rekstrarkostnaður

Rekstartekjur fyrirtækisins námu 7.350 milljónum króna á rekstarárinu 2015, samanborið við 7.479 milljónir króna árið 2014. Tekjur af smásölu jukust umtalsvert en að sama skapi jókst kostnaður vegna orkukaupa.
Rekstrarkostnaður lækkaði um 4,5% eða sem nemur 252 m.kr. milli ára. vegna breytinga á samningum við HS Veitur drógust gjöld og tekjur saman um 723 milljónir.

Langtímaskuldir lækkuðu

Greiddar voru afborganir af langtímaskuldum að fjárhæð 2.308 milljónum króna á árinu, gengishagnaður var 178 m.kr. og verðbótahækkun nam 36 m.kr. sem veldur því að langtímalán félagsins hafa lækkað um 2.450 milljónir króna frá árinu 2014. Eiginfjárhlutfall 31. desember 2015 er áfram mjög sterkt eða 58,6% samanborið við 59,7% í árslok 2014.

 

Rekstrartekjur á ári 2011 - 2015

Eigið fé á ári 2011 - 2015

Eiginfjárhlutfall á ári 2011 - 2015

Áætlaður hagnaður 1,7 milljarður króna 2015


Svartsengi

Ársskýrsla HS Orku 2015

Reksturinn gekk vel

Framleiðsla HS Orku gekk með ágætum á árinu 2015. Heildar raforkuvinnsla var 1.294 GWh sem var um 4,5% undir áætlun ársins og um 3% undir framleiðslu ársins 2014. Raforkuvinnsla fyrirtækisins hefur verið stöðug undanfarin ár, sem ber gæðum orkuveranna og færni þeirra starfsmanna sem þau reka gott vitni, en áreiðanleiki orkuframleiðslunnar er mikill.

HS Orka jók raforkusölu á smásölumarkaði um 2.1% frá fyrra ári. Metur HS Orka jákvæð viðskipti og viðbrögð viðskiptavina mikils. HS Orka hefur nú enn og aftur hlotið efsta sæti Íslensku ánægjuvogarinnar í flokki raforkusala, í 13. sinn á 14 árum. Félagið er afar stolt af þessum árangri sem felur í sér hvatningu til góðra verka í framtíðinni.

Rekstrartekjur félagsins á árinu voru 7,35 milljarðar króna, samanborið við 7,48 milljarða króna árið 2013. Lækkun er um 1,7% á milli ára sem skýrist að hluta af lækkun tekna vegna raforkusölu til álbræðslu, en álverð hélt áfram að lækka á árinu. Tekjur af raforkusölu voru 80,01% af tekjum félagsins árið 2015. 

 

EBITDA 2015 

2.77 ma.kr.

EBITDA ársins er 2,77 milljarðar króna samanborið við 2,74 milljarða króna árið 2014. Nemur hækkunin milli ára 1,3%. Helsta skýring á hækkun milli ára er aukning tekna á smásölumarkaði raforku.

Breytt samstarf HS Orku og HS Veitna

Um áramótin 2014-2015 var gerð umfangsmikil breyting á starfsemi HS Orku. Rúmlega 80 starfsmenn, sem sinnt höfðu verkefnum fyrir HS Veitur skv. þjónustusamningi, færðust yfir til HS Veitna. Þjónustusamningur milli félaganna tók því verulegum breytingum og er vert að hafa það í huga við samanburð á rekstri áranna. Ef horft er framhjá þessum breytingum hækkuðu tekjur fyrirtækisins á milli ára.  Aðallega vegna aukinnar raforkusölu í smásölu.

Af öðrum viðskiptum við HS Veitur ber hæst framleiðsla og heildsala á heitu vatni inn á dreifikerfi HS Veitna. Nokkur aukning hefur orðið á heitavatnsnotkun á undanförnum árum og á árinu var tekin í notkun veruleg stækkun heitavatnsframleiðslu í Svartsengi til að anna framtíðarþörf.

Samningur HS Orku við Norðurál Helguvík vegna raforkusölu til álvers er sem fyrr stærsta verkefni félagsins er varðar aukna jarðvarmavinnslu og orkusölu. Viðræður um samninginn hafa staðið yfir í langan tíma og ekki hefur tekist að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir báða aðila. HS Orka vísaði málinu til úrskurðar gerðardóms um mitt ár 2014. Niðurstöðu er að vænta í málinu á árinu.   

 

Ásgeir Margeirsson forstjóri

Aukin orkuvinnsla á Reykjanesi

HS Orka hefur  unnið að aukinni orkuvinnslu í jarðvarmaverkefnum á Reykjanesi, í Eldvörpum og í Krýsuvík. Meginvinna síðasta árs hefur verið á sviði auðlindasamninga, leyfisveitinga, grunnrannsókna og frumhönnunar. Á liðnu ári var boruð hola á Reykjanesi, hola RN-34 til niðurdælingar. Í Svartsengi var boruð hola SVA-25 og hafin borun holu SVA-26. Jarðboranir hf. annast borverkið skv. samningi sem gerður var í kjölfar útboðs árið 2014.

Samningur HS Orku og VesturVerks

HS Orka hefur unnið ötullega að þróun nokkurra vatnaaflsverkefna. Lagt var inn nýtt hlutafé í VesturVerk hf. á Ísafirði vegna rannsókna við virkjunarkostina Hvalá í Ófeigsfirði (55 MW) og Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (10 MW). Á HS Orka nú meirihluta í VesturVerki (58%). VesturVerk hefur enn fremur unnið að skoðun fleiri virkjunarkosta á Vestfjörðum.

Enn fremur hefur verið unnið að rannsóknum vegna Brúarvirkjunar (10 MW) í Tungufljóti í Bláskógabyggð og fleiri virkjunarkostir í vatnsafli eru til skoðunar.

Á árinu var gengið frá samningum við samstarfsaðila og styrkveitendur vegna djúpborunarverkefnis sem hefst á þessu ári. Hola 15 á Reykjanesi verður dýpkuð í allt að 5.000 m til að rannsaka neðri hluta jarðhitakerfisins. Hér er um mikla og verulega áhugaverða framkvæmd að ræða. Er mikið fagnaðarefni hvernig tekist hefur til með samninga við alla þá sem að verkefninu koma.

Auðlindagarðurinn og önnur starfsemi

Auðlindagarðurinn hefur vakið verðskuldaða athyli. Á árinu kynnti Gamma skýrslu sem unnin var fyrir HS Orku og Bláa Lónið um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif af starfsemi Auðlindagarðsins. Niðurstöðurnar komu á óvart og höfðu fáir eða engir gert sér grein fyrir hve fjölþætt, jákvæð og mikil áhrifin eru. Unnið er að frekari þróun Auðlindagarðsins og má þar nefna nærtæk dæmi um aukið fiskeldi, gashreinsun og vinnslu á koltvísýringi og hreinsun og vinnslu á kísli. Framkvæmdir vegna þessara verkefna hefjast á árinu 2016.

HS Orka hefur á árinu aukið raforkusölu til gagnavera og er sá þáttur vaxandi í starfsemi fyrirtækisins. Á árinu 2015 var enn fremur gerður samningur um sölu á raforku til áformaðs kísilvers Thorsil í Helguvík.

Fjárfestingar

Fjárfestingar 2015

2,56 ma.kr.

Fjárfestingar á árinu 2015 námu alls 2,56 milljörðum. Stærstu fjárfestingarverkefnin voru aukin framleiðslugeta á heitu vatni í Svartsengi, boranir í Svartsengi og á Reykjanesi, framkvæmdir vegna sjávarlagnar í Svartsengi, framkvæmdir við niðurdælingarlögn á Reykjanesi og rannsóknir vegna vatnsaflsverkefna.

Eigið fé er 59 prósent

Efnahagsreikningur félagsins hefur styrkst verulega á undanförnum árum og hafa langtímaskuldir fyrirtækisins farið hratt lækkandi. Eiginfjárhlutfall í árslok 2015 er sterkt, 59% og félagið hefur getu til frekari fjárfestinga í náinni framtíð.

HS Orka mun eftir sem áður veita mikilvæga þjónustu til uppbyggingar samfélagsins, til smærri og stærri aðila, með sölu á sinni þjónustu.

AvarpStjornarformanns-header.jpg

Ávarp stjórnarformanns

Stolt af árangrinum

Við erum stolt af árangri okkar á árinu 2015 enda gekk rekstur félagsins vel, sem svo oft áður. Framleiðsla var stöðug og framleiðslugeta á heitu vatni jókst. Hagnaður jókst á árinu sé tillit tekið til minni tekna og kostnaðar vegna þjónustu sem áður var veitt HS Veitum. Þessi árangur sýnir enn og aftur fram á hve stöðug og áreiðanleg starfsemi okkar er, þrátt fyrir þá margvíslegu erfiðleika sem við höfum þurft að glíma við, svo sem lágt álverð og harða samkeppni á íslenskum raforkumarkaði.

Félagið naut einnig fjárhagslegrar velgengni á árinu 2015. Við styrktum efnahagsreikning þess með niðurgreiðslu skulda í gegnum sjóðstreymi og með endurmati orkuversins í Svartsengi og ef svo fer fram sem horfir gæti sjóðstreymi til hluthafa okkar aukist til muna frá og með árinu 2017.

320 milljónir til hluthafa

Framkvæmdir við jarðvarmaverkefni fyrirtækisins á Reykjanesi héldu áfram á árinu. Meðal annars voru boraðar tvær nýjar niðurdælingarholur og lögð ný niðurdælingarlögn til að auka stöðugleika á svæðinu. Niðurdælingarkerfið verður komið í gagnið á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016.

Þó að HS Orka nýti nú mest af fjármagnsstreymi sínu til að létta greiðslubyrði og eiga möguleika á að auka umsvif var þó hægt að greiða hluthöfum 320 milljónir króna í arð á árinu, aðallega vegna arðgreiðslna frá Bláa Lóninu sem HS Orka á 30% hlut í. Bláa lónið hélt áfram að fara fram úr væntingum á árinu 2015, þökk sé sífellt fleiri gestum og góðum rekstri. Einnig var hafin bygging nýrrar heilsulindar og lúxushótels við Bláa lónið, en áætlað er að rekstur hefjist árið 2017.

Úrskurð gerðardóms að vænta 

Enn er óleystur ágreiningur um orkusölusamning við Norðurál Helguvík. Því miður hafa aðilar ekki náð samkomulagi um þær breytingar á lykilskilmálum sem þarf svo hægt sé að uppfylla ákvæði orkusölusamningsins. HS Orka afréð því að vísa deilunni til gerðardóms árið 2014. Úrskurðar gerðardóms er að vænta árið 2016.

Stjórnendahópurinn okkar skilaði góðum árangri á árinu, einu sinni sem oftar. Áhugavert er að fylgjast með og styðja við þróunartækifæri. Mikilvæg skref hafa verið stigin í tengslum við vatnsaflsvirkjanir en fyrsta slíka verkefnið kemst vonandi á byggingarstig á árinu 2016.

Íslenska djúpborunarverkefnið

HS Orka er í forsvari fyrir íslenska djúpborunarverkefnið (Iceland Deep Drilling Project, IDDP) og áætlað er að hafist verði handa við borun nýrrar holu á vegum verkefnisins sumarið 2016 þegar hola 15 á Reykjanesi verður dýpkuð. Um er að ræða mjög spennandi verkefni sem getur haft mikil áhrif á framtíðarþróun jarðhitageirans.

Áhrif Auðlindagarðsins

HS Orka og Bláa lónið fengu GAMMA til að vinna fyrir sig skýrslu um Auðlindagarðinn. Niðurstöðurnar voru kynntar í maí 2015 og óhætt er að segja að Auðlindagarðurinn hafi vakið mikla athygli enda er fjölþætt nýting auðlindastrauma frá jarðvarmavinnslu HS Orku einstök í heiminum. Markmið okkar er að halda áfram að nýta auðlindir á sem bestan hátt, samfélaginu og umhverfinu til góða. Við erum afar stolt af því geta veitt viðskiptavinum okkar hreina orku, þökk sé náttúrulegum jarðvarma, sérfræðiþekkingu starfsfólks okkar og bolmagni félagsins.

Þakkir til starfsfólks

Ég vil þakka öllu starfsfólki HS Orku, stjórnendum og yfirmönnum fyrir iðjusemi sína og fórnfýsi fyrir hönd fyrirtækisins, oft við erfiðar aðstæður. Ég vil líka þakka hluthöfum HS Orku, Alterra Power Corp. og Jarðvarma, sem hafa unnið vel og vinsamlega saman að málefnum fyrirtækisins á árinu 2015. Ég vona að 2016 verði fyrirtækinu jafn farsælt.  

Svartsengi

Fjármálasvið

Verkefni fjármálasviðs eru fjölþætt og undir sviðið heyra fjármál, áhættustýring, tryggingar, fjárhagsáætlanagerð, bókhald og fjárreiður fyrirtækisins. Sviðið selur HS Veitum þjónustu bókara, gjaldkera og sérfræðinga í fjármálum. Þá ber sviðið ábyrgð á upplýsingatæknimálum, innheimtumálum og innkaupum fyrirtækisins, þó þessir þættir hafi að miklu leyti verið keyptir af HS Veitum. 

Breytingar á innkaupum

Talsverðar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi innkaupamála á árinu, er Guðmundur Björnsson lét af störfum sem innkaupastjóri hjá HS Veitum. Við þá breytingu var ákveðið að kaupa ekki lengur þjónustu innkaupastjóra af HS Veitum, en dreifa þess í stað þeim verkefnum sem hann hafði annast á starfsmenn á fjármálasviði, á lagerstjóra í Svartsengi og á nýja stöðu lögfræðings sem tók við utanumhaldi um stærri útboðsverk og samningagerð. Þessi breyting tókst mjög vel og er almenn ánægja með hið nýja fyrirkomulag. Áfram er samstarf við HS Veitur hvað varðar ákveðna þætti innkaupamála og er þjónusta keypt af HS Veitum eftir þörfum..

Stefnumótun í upplýsingatækni

Á árinu var ráðist í töluverða vinnu við stefnumótun í upplýsingatækni í samstarfi við Advania. Má segja að verkefnið sé í meginatriðum tvíþætt og lýtur annars vegar að stjórnbúnaði orkuveranna og hins vegar uppbyggingu skrifstofunets HS Orku. Var unnin ítarleg greining á báðum þessum þáttum og hún lögð til grundvallar viðamiklum breytingum sem hófust á árinu. 

Þá var ákveðið að skipta um skjalakerfi, en nokkur óánægja ríkti með það kerfi sem var í notkun og var ákveðið að taka upp íslenskt kerfi frá fyrirtækinu Azazo sem ber heitið CoreData. Efnt var til samkeppni meðal starfsmanna um hvaða heiti ætti að nota á kerfið innanhúss hjá HS Orku og varð heitið Kvikan fyrir valinu.

Uppfærsla á fjárhags- og launabókhaldi

Einnig hefur verið unnið að uppfærslu á fjárhagsbókhaldi og launabókhaldi fyrirtækisins, en það hafði ekki verið uppfært frá árinu 2008 og því orðin brýn þörf á uppfærslu. Sökum þess hve langur tími var liðinn frá síðustu uppfærslu er verkefnið verulega umfangsmikið og mun vara eitthvað inn á árið 2016. Uppfærslan átti sér stað um áramótin 2015-2016 og hefur gengið nokkurn veginn samkvæmt áætlun. Samhliða þessari uppbyggingu er verið að innleiða tól sem heldur utan um vöruhús gagna og nýtt greiningartól fyrir fjárhagsupplýsingar.

 

Breytingar á stefnumótun í upplýsingatækni

Nýr deildarstjóri upplýsingatæknideildar

Þótt ofangreind verkefni hafi gengið ágætlega er ýmsum þáttum ólokið og það hefur berlega komið í ljós að það er ekki viðunandi fyrir fyrirtæki eins og HS Orku að vera upp á annað fyrirtæki komið með sín upplýsingatæknimál. Var því tekin ákvörðun undir lok ársins að ráða starfsmann í nýja stöðu deildarstjóra upplýsingatæknideildar, með það fyrir augum að minnka þjónustukaup af HS Veitum. Var Sigurður Markús Grétarsson, sem gengt hefur stöðu deildarstjóra hjá Vodafone, ráðinn í starfið og mun hann hefja störf í mars 2016.

 

HS Orka hefur notað eftirlits og áhættustjórnunarkerfi sem innleitt var með hliðsjón af Sarbanes-Oxley lögunum (SOX) á árinu 2011 til innra eftirlits. Til að tryggja gæði þessa starfs var gerður samningur við endurskoðunarfyrirtækið ENOR árið 2014 um prófanir og eftirlit með þessum verkferlum. ENOR gefur endurskoðunarnefnd fyrirtækisins skýrslu árlega um sínar niðurstöður. Niðurstöður fyrir árið 2015 voru góðar og engin meiriháttar frávik komu í ljós.

Djúpborunarverkefni á Reykjanesi

HS Orku hefur verið veitt hlutdeild í rannsóknarstyrk til þátttöku í djúpborunarverkefni sem felur í sér borun djúprar holu á virkjanasvæði HS Orku á Reykjanesi. Þetta er hluti hins íslenska djúpborunarverkefnis (IDDP). DEEPEGS verkefnið er fjögurra ára verkefni undir stjórn HS Orku, í samvinnu við samstarfsaðila frá Íslandi, Frakklandi, Þýskalandi og Noregi. Kallar stjórnun þessa verkefnis á töluvert utanumhald og fjármálaþjónustu. Til að geta sinnt þessu var auglýst eftir verkefnastjóra til að halda utan um fjármálahlið verkefnisins. Var Jóhann Líndal Jóhannsson, löggiltur endurskoðandi sem starfað hefur hjá Deloitte, ráðinn í starfið og mun hann hefja störf í byrjun mars 2016. Staða verkefnastjóra er kostuð af verkefninu.

 

Djúpborunarverkefni á Reykjanesi

Stefnumótunar og fjárhagsáætlunarferli

Á hverju ári er farið í gegnum ítarlegt stefnumótunar- og fjárhagsáætlunarferli sem lýkur með því að stjórn samþykkir undir lok hvers árs fjárhagsáætlun félagsins fyrir næsta ár. Gerð eru innanhússuppgjör mánaðarlega til að fylgjast með og greina frávik frá áætlun. Einnig er gerður samanburður við fyrri ár og frávik skýrð. Rekstur félagsins hefur verið stöðugur og fyrri áætlanir verið áreiðanlegar og því hafa frávik komið fljótt í ljós.

Þrátt fyrir að margt hafi áunnist á árinu 2015 á fjármálasviði, þá bíða fjölmörg verkefni úrvinnslu. Má þar helst nefna innleiðingu árangursmælikvarða og mælaborði stjórnenda, vinnu við heilstætt áhættumat og innleiðingu staðlaðs verklags við áhættustýringu ásamt áframhaldandi umbótum á upplýsingatæknimálum. Felast í þessu fjölmörg tækifæri til úrbóta fyrir HS Orku og hlakkar starfsfólk fjármálasviðs til að takast á við þessi krefjandi verkefni.

.

Reykjanes

Stjórn og skipulag

Aðalfundur HS Orku hf. var haldinn 25. mars að Stórhöfða 31 í Reykjavík. Stjórn var öll endurkjörin og var þannig skipuð: 

Stjórn HS Orku

Ross Beaty

Formaður

Ross Beaty
John Carson

Varaformaður

John Carson
Gylfi Árnason

Ritari

Gylfi Árnason
Anna Skúladottir

Meðstjórnandi

Anna Skúladóttir
Lynda Freeman

Meðstjórnandi

Lynda Freeman

Varamaður í stjórn

Lindsay Murray

Varamaður í stjórn

Garðar Gíslason
Ásgeir Margeirsson

Forstjóri

Ásgeir Margeirsson
Skipting hlutafjár
  Hlutir Hlutfall
Magma Energy Sweden A.B. 5.222.188.911 66.6%
Jarðvarmi slhf. 2.618.935.580 33.4%

Gildi HS Orku eru: Heiðarleiki - Framsýni - Metnaður

Orkuver Svartsengi Ljósaskipti 2400px.jpg

Auðlinda­garðurinn

Nýta alla auðlindastrauma frá jarðvarmaverum

Árið 2015 var viðburðaríkt í sögu Auðlindagarðsins en á árinu kom út skýrsla sem varpar ljósi á framlag þeirra níu fyrirtækja sem skipa garðinn til verðmætasköpunar, landsframleiðslu og atvinnuuppbyggingar. Í skýrslunni er jafnframt vikið að þeim framtíðartækifærum sem felast í starfsemi Auðlindagarðsins. Skýrslan var unnin af GAMMA ráðgjöf og dr. Friðriki Má Baldurssyni, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á ráðstefnu í Hörpu í maí og var fylgt eftir með fjölda annarra minni viðburða fyrir fyrirtæki, sveitarfélög og félagasamtök víða um land. Þá var einnig opnuð heimasíða Auðlindagarðsins en þar er að finna upplýsingar um starfsemi garðsins og niðurstöður GAMMA bæði á íslensku og ensku. 

 Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdarstjóri Auðlindagarðs – Orkuverinu Svartsengi.

„Samfélag án sóunar“

Kenniorð Auðlindagarðsins er „Samfélag án sóunar“, að nýta beri alla þá auðlindastrauma sem streyma inn í og frá fyrirtækjum garðsins til fulls, á sem ábyrgastan hátt, samfélaginu til framþróunar og heilla. Auðlindagarðurinn er eina frumkvöðlaþyrpingin sem vitað er til að byggst hafi upp í kringum jarðvarma. Samstarfið sem skapast hefur milli starfsmanna HS Orku og fyrirtækjanna innan garðsins er einstakt og undirstrikar sérstöðu íslenskrar jarðvarmavinnslu. Níu fyrirtæki í ólíkum atvinnugreinum mynda Auðlindagarðinn, fyrirtæki sem nýta með beinum hætti tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmavinnslu HS Orku á Reykjanesskaga.

Afurðir fyrirtækjanna í Auðlindagarðinum eru að stórum hluta útflutningsafurðir sem endurspeglast glöggt í niðurstöðum GAMMA sem sýna að á árinu 2014 nam velta Auðlindagarðsins 22,2 milljörðum króna sem jafngildir um 1,1% af landsframleiðslu. Þar af var verðmætasköpun um 10 milljarðar króna og hafði þá tæplega tvöfaldast frá árinu 2008. Verðmætasköpun Auðlindagarðsins á tímabilinu 2008-2014 endurspeglast einnig í um það bil 30% hærri atvinnutekjum að meðaltali en á landsvísu. Fullnýting auðlinda á Suðurnesjum skilar sér í margfaldri verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.

600 manns starfa í Auðlindagarðinum

Í Auðlindagarðinum starfa nú tæplega 600 manns og má ætla að önnur 600 afleidd störf hafir orðið til vegna starfseminnar. Þá má jafnframt færa rök fyrir því að atvinnuleysi á Suðurnesjum hefði verið um það bil einu prósentustigi hærra að meðaltali á árunum 2008-2014 ef Auðlindagarðsins hefði ekki notið við.

„Fullnýting auðlinda lýsir einfaldlega heilbrigðri skynsemi“

Albert Albertsson, hugmyndasmiður HS Orku

Auðlindastraumarnir eru ekki fullnýttir

Auðlindastraumar frá starfsemi HS Orku á Suðurnesjum eru enn ekki fullnýttir og lítur út fyrir fjölgun fyrirtækja innan garðsins á næstu misserum. HS Orka hefur skrifað undir samstarfssamning við Danska fyrirtækið Haldor Topsøe um hreinsun á brennisteinsvetni úr hluta af gasstraumi orkuversins í Svartsengi. Framkvæmdir hefjast sumarið 2016 og er stefnt að því að geta boðið upp á hreinan kolsýrustraum (CO2) til iðnaðarnota og/eða matvælaframleiðslu snemma árs 2017. Á Reykjanesi standa yfir tilraunir við að fella kísl (SiO2) úr skiljuvökvanum. Samhliða útfellingartilraununum hafa eðliseiginleikar kíslinnar (SiO2) verið rannsakaðir í þeim tilgangi að finna henni hentugan nýtingarfarveg.

Fleiri fjölbreytt og sérhæfð fyrirtæki sem grundvalla starfsemi sína á rannsóknum og þróun styrkja Auðlindagarðinn og þá hugsun sem starfsemi hans byggir á. Með aukinni tækni, vinnslunýtni og fjölgun sérhæfðra fyrirtækja mun Auðlindagarðurinn vaxa og eflast á næstu árum, Suðurnesjum og landinu öllu til hagsbóta. Það er jafnframt stefna HS Orku að haga starfsemi sinni þannig að hægt verði að setja upp nýja Auðlindagarða samhliða nýtingu jarðhita á öðrum svæðum. Fjölnýting auðlinda styður við haldbæra nýtingu þeirra og stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins. HS Orka heldur ótrauð áfram að rækta Auðlindagarðinn sinn með skynsamlegum og ábyrgum hætti, samfélaginu til heilla. 

  



Orkuver.jpg

Orkuver

Upptekt og framleiðsla

Rekstur framleiðsludeildar gekk vel á árinu og voru óvæntar uppákomur fáar. Þá var rekstur jarðhitakerfa með svipuðum hætti og áður. 

  • Í Svartsengi var heildarupptekt nettó, um 5,6 milljón tonn sem er  svipað og í fyrra. 
  • Á Reykjanesi var heildarupptekt nettó, um 12, 9 milljón tonn sem er minnkun um rúm 6%.
  • Í Svartsengi var raforkuframleiðsla 531,8 GWh, sem er minnkun um 3,6% á milli ára.
  • Raforkuframleiðsla á Reykjanesi var 762,4 GWh, sem er minnkun um 3% milli ára. 
  • Heildar framleiðsla orkuvera SVA-REY dróst saman um 3,3% milli ára.

Minni heildarframleiðsla kemur til af aukinni heitavatsnframleiðslu í Svartsengi og minni raforkuframleiðslu á Reykjanesi.


    Heitavatnsframleiðsla í Svartsengi árið 2015 var um 6,3% meiri en árið 2014.

    Í töflunni hér að neðan getur að líta yfirlit yfir framleiðslu hitaveituvatns.

    Framleiðsla hitaveituvatns
    Tonn Meðalrennsli l/s Orkuinnihald GWh Meðalafl
    Framleitt hitaveituvatn 2015 13.221.908 419 724 82,7 Allt árið 2015
    Hámarks mánaðarframleiðsla 1.263.685 455 73,5 98,8 Janúar 2015
    Hámarks vikuframleiðsla, sala 280.844 464 17,1 101,7 Vika 9 (21. til 28. feb. 2015)
    Hámarks sólarhringsframleiðsla 41.377 479 2,48 103,3 25. des. 2015
    Hámarks klst. framleiðsla l/s 1.768 491 0,106 105,9 kl. 03:00-04:00 25. des. 2015
    Hámarks klst. framleiðsla MW 1.710 475 0,107 106,9 kl. 08:00-09:00 16. jan. 2015
    Framleitt hitaveituvatn, SALA 13.198.194 419 790 78,9 Allt árið 2015


    Uppsett framleiðsluafköst hafa verið um 465 l/sek en voru aukin um 120 l/sek með tilkomu nýrrar varmarásar í orkuveri 2 í nóvember og eru nú samtals 585 l/sek. Engar marktækar breytingar hafa komið fram á efnasamsetningu heita vatnsins sem HS Veitur dreifa um Suðurnes frá heitavatnsgeymum HS Orku. 

    Kaldavatnsframleiðsla HS Orku til HS Veitna var samtals um 6.342.þ.m3.

    15,4 milljónir tonna

    Heildarvinnsla úr jarðhitasvæðinu í Svartsengi var svipuð og í fyrra um 15 milljón tonn.

    Niðurdæling affallsvatns í djúpholur SVAH-17 og 24 var um 9,35 milljón tonn sem eru um 297 kg/sek að meðaltali yfir árið. Niðurdæling minnkaði um 4,6% milli ára. 

    Jarðhitavinnsla á Reykjanesi

    Upptekt úr vinnsluholum á Reykjanesi  árið 2015

    16 m. tonn

    Upptekt úr vinnsluholum á Reykjanesi á árinu 2015 var um 16 milljón tonn, sem er um 3% minna en á síðasta ári.

    Á árinu 2015 var niðurdæling í jarðhitageyminn á Reykjanesi samtals um 3 milljónir tonna í holur REYH 20, 29 og 34, mest í holu REYH 20 um 64 kg/s að meðaltali


    Rekstur og viðhald virkjana 

    Reykjanesvirkjun

    Rekstur Reykjanesvirkjunar gekk ágætlega fyrir utan nokkur stutt viðgerðarstopp, aðallega vegna viðgerða á gufuveitukerfum.

    Árlegar skipulagðar vélaskoðanir fóru fram auk smávægilegra lagfæringa í gufuveitum. 

    Svartsengi

    Rekstur orkuversins í Svartsengi gekk vel og fáar truflanir voru í rekstri. Framan af ári var þó tæpt á því að heitavatnsframleiðslan hefði við mikilli notkun. Söfnun á förgunarvatni til niðurdælingar eftir endur-og viðbætur á árinu 2014 skilaði sér vel á árinu 2015. Ormat-stöðin var keyrð með 6 af 7 vélum nánast allt árið og voru það tímamót eftir nokkurra ára hlé vegna bilana í loftkældum eimsvölum.

    Vél 3 (6 MW) var tekin úr rekstri 10.-22. maí vegna hefðbundinnar upptektar og hreinsunar.

    Vél 12 (30 MW) var tekin úr rekstri 31. maí til 29. júní. Þetta er fyrsta upptekt á gufuhverfli frá því hann var tekinn í rekstur þann 20. des. 2007. Viðhald framkvæmt á vélbúnaði og á kæliturni ásamt smávægilegum lagfæringum í gufuveitu OV6.

    Vél 11 (30 MW) var tekin úr rekstri 1. júlí til 31. júlí 5 ára reglulega upptekt á gufuhverfli auk 15 ára skoðunar á rafala. ALSTOM Norway sá um verkið og var beitt nýrri tækni, DIRIS-Inspection, við skoðun og ástandsmat á innviðum rafalans. Einnig var sinnt öðru tilheyrandi viðhaldi.

    Allar skoðanir og yfirferðir á starfseminni í Svartsengi sem fóru fram á árinu komu vel út.

    Orkuver 4 (Ormat-stöðin)

    Lokið var við viðgerð á eimsvölum fyrir vél 7 og vél 9 á árinu. Vél 7 var tekin í rekstur eftir nokkurra ára stopp en vél 9 var ekki tekin í rekstur árinu vegna skorts á varahlutum.

    Hafin var endurnýjun á stýrivélum (PLC) Ormat-véla. Fyrsti áfanginn var að skipta út stýrivélum í Ormat 4-5-6 og lauk því verki á haustmánuðum. Upprunalegar stýrivélar voru orðnar 25 ára gamlar og úreltar. Verkefnið var unnið með framleiðanda vélanna, ORMAT, og gekk sú samvinna vel fyrir sig.

    Orkuver 2

    Nýr heitavatnsturn var tekinn í rekstur á miðju ári. Með tilkomu hans jókst heitavatnframleiðslugetan um 120 l/sek sem bættir verulega stöðuna í heitavatnsframleiðslunni.

    Gerðar voru endurbætur á hjálparkerfum núverandi heitavatnsframleiðsluturna sem skapa stöðugri rekstur fyrir hverja einingu fyrir sig.

    Árlegt viðhaldsstopp var 3. september og var framkvæmd hreinsun og smávægilegar viðgerðir á gufuveitu og öðru veitukerfi orkuversins.


    Hönnun og smíði er hafin á nýrri dælustöð fyrir aukna flutningsgetu á heitu vatni frá orkuverinu að forðageymi fyrir Grindavík og notendur við orkuverið m.a. Bláa Lónið. Með þessari dælustöð verður hægt að flytja 120 l/sek af heitu vatni frá orkuverinu að forðageymi ásamt því að afhendingaröryggi á heitu vatni eykst til muna. Dælustöðin verður tekin í rekstur á vormánuðum 2016.

    Endurnýjaðir voru sölumælar á heitu vatni frá dælustöð í Fitjum. Eldri mælarnir voru frá árinu 1980 og stóðust ekki kröfur um sölumæla. 


    Raforkukaup og raforkusala

    Raforkukaup og raforkusala

    Aukin eftirspurn á heildsölumarkaði 

    Eftirspurn eftir raforku jókst umtalsvert á árinu sem var áframhald frá síðasta ári. Aukning á almennum markaði var stöðug en eftirspurn stórnotenda var mikil á árinu miðað við fyrri ár. Þar munar mest um mikla aukningu í raforkunotkun gagnavera og mikla notkun fiskimjölsverksmiðja sem hafa unnið að rafvæðingu vinnslu sinnar síðustu ár.

    Aukin heildarraforkusala

    2%

    Heildarraforkusala HS Orku á árinu 2015 jókst um rúm 2% á milli ára.

    Kaup frá öðrum raforkusölum eykst

    Raforkuframleiðsla í Svartsengi og á Reykjanesi inn á flutningskerfið dróst saman um rúm 3% á milli ára en lítilsháttar aukning varð í framleiðslu vatnsaflsvirkjana sem HS Orka er með í stýringu. Kaup frá öðrum raforkusölum jukust verulega eða um rúm 21% á milli ára. Aukin kaup skýrast af skammtíma samningum við fiskimjölsverksmiðjur sem notuðu umtalsvert meira af rafmagni samanborið við fyrra ár og að einhverju leyti af minnkandi framleiðslu. 

    Afltoppar sölu

    Raforka keypt af Landsvirkjun

    Stór hluti af þeirri raforku sem HS Orka kaupir af öðrum raforkuframleiðendum hefur verið bundin í 12 ára samningi við Landsvirkjun og rennur sá samningur út um næstu áramót. Landsvirkjun hyggur á breytt samningsform sinna heildsöluviðskipta og hefur ekki enn verið skýrt frá þeim breytingum. Auk þess kaupir HS Orka raforku samkvæmt skammtímasamningum af Landsvirkjun og frá öðrum framleiðendum. Þá hefur HS Orka gert lengri samninga við nokkra minni vatnsaflsframleiðendur um kaup á þeirra framleiðslu. Á árinu var lokið við samninga um kaup á raforku frá tveimur vatnsaflsvirkjunum og er gert ráð fyrir því að framleiðsla hefjist í þeim á árinu 2016. 

     Kristján Baldursson vélfræðingur að störfum í Orkuverinu Reykjanesi

     

    Vatnsaflsvirkjun í skoðun 

    Til að mæta aukinni eftirspurn á raforkumarkaði hefur HS Orka verið að skoða hvernig auka megi framleiðslu í jarðgufuvirkjunum félagsins auk þess sem nýir jarðgufukostir hafa verið skoðaðir. Einnig hefur fyrirtækið horft til þess að bæta við framleiðslu sína með minni vatnsaflskostum og eru nokkur slík verkefni til skoðunar og er niðurstöðu að vænta fljótlega. Samhliða er unnið með einkaaðilum sem hafa í hyggju að koma inn með nýja vatnsaflskosti.

    Gerður var samningur um sölu á hluta af raforkuþörf kísilvers sem reisa á í Helguvík sem hefja mun framleiðslu 2018. Einnig var undirrituð viljayfirlýsing um sölu á litlum hluta af raforkuþörf kísilvers sem byggja á á Grundartanga. Bæði samkomulögin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu dómsmáls milli HS Orku og Norðuráls í Helguvík sem vænta má niðurstöðu í í júlí 2016. 

    Tekjur af raforkusölu í smásölu aukast

    Tekjur af raforkusölu í smásölu aukast

    20%

     

    Tekjur af raforkusölu í smásölu jukust á árinu um tæp 20% en á móti kom að kostnaður vegna kaupa á raforku frá öðrum raforkuframleiðendum jókst um tæp 18%. Sala til álvera dróst saman um tæp 3%. 


    Orkuöflun og orkusala
    2015 GWh 2014 GWh Breyti ng%
    Heildarframleiðsla eigin virkjana 1.293,8 1.337,6 -3,3
    Eigin notkun virkjana -64,9 -67,0 -3,1
    Orkukaup frá öðrum 437,4 361,0 21,2
    Sala á almennum markaði 871,6 762,7 14,3
    Sala til álvera 739,4 761,6 -2,9
    Önnur raforkusala 55,3 107,3 -48,5
    Throun.jpg

    Þróunar­verkefni

    Framkvæmdir við orkuver í Svartsengi

    Fráveitulögn til sjávar

    Framkvæmdir við sjávarlögn fóru af stað á árinu og verður lokið um mitt ár 2016. Sjávarlögnin skapar skilyrði til þess að ná megi fullri stjórn á fráveitu jarðhitavökva frá orkuverinu í Svartsengi og afhendingu á jarðhitavökva til Bláa Lónsins.

    Samið var við fjármálaráðuneytið um leigu á landi undir sjávarlögnina. Samningur var einnig undirritaður við Náttúrustofu Suðvesturlands um rannsóknir á lífríki fjöru við Arfadalsvík og sjávarbotns við útrásarenda fráveitulagnar. Með samningnum verður grunnástand lífríkis á svæðinu kortlagt svo síðar verði hægt að fylgjast með áhrifum fráveituvökvans á lífríki svæðisins í samræmi við vöktunaráætlun.

    Grindavíkurbær veitti framkvæmdarleyfi í byrjun árs 2015.  Samningur var gerður við Set í kjölfar útboðs á pípum og lagnabúnaði með afhendingu í mars. Þá var tilboði Ístaks tekið um yfirborðsrýmingu á leið lagna og vegslóða og hófust framkvæmdir í byrjun febrúar 2015.

    Orkuverið í Svartsengi

    Lokahús sjávarlagnar

    Gerður var samningur við umráðaaðila landsins um leigu á landi fyrir lokahús sjávarlagnar. Gert var sérstakt deiliskipulag fyrir lóðina og hún stofnuð í fasteignaskrá. Þá hefur Grindavíkurbær samþykkt byggingarleyfi fyrir lokahúsinu sem reist verður við sjávarkambinn við Arfadalsvík.

    Dælustöð fráveitu og styrking aðveitu í Svartsengi

    Framkvæmdum við dælustöð fráveituvökva lauk snemma á árinu og var stöðin komin í fullan rekstur í febrúar í samræmi við áætlun. Einnig lauk snemma á árinu framkvæmdum við styrkingu flutningskerfis ferskvatns frá brunnsvæði í Lágum sem bætti afkastagetu ferskvatnsveitu þannig að orkuverið var vel í stakk búið fyrir aukna framleiðslu á heitu vatni fyrir HS Veitur í nýjum framleiðsluturni orkuvers í Svartsengi sem tekinn var í gagnið á haustdögum.

    Sigmundur Bjarki Egilsson vélfræðingur að störfum í Orkuverinu Svartsengi

    Borun tveggja borhola

    Nýtt deiliskipulag fékkst samþykkt fyrir tvær nýjar borholur í jaðri gufusvæðis orkuversins í Svartsengi. Skipulagið var unnið í nánu samráði við önnur fyrirtæki Auðlindagarðsins sem eru á svæðinu og fékkst samþykkt sem óveruleg breyting á fyrirliggjandi skipulagi. Framkvæmdin var tilkynnt í matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar sem úrskurðaði framkvæmdina án umtalsverðra neikvæðra umhverfisáhrifa og að ekki væri þörf á fullu mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaleyfi var gefið út af Grindavíkurbæ og framkvæmdir hófust á tilsettum tíma. 

    Vegna aukins umfangs borana á vegum fyrirtækisins var gerð raun-hljóðmæling á jarðbornum Þór sem var við boranir á Reykjanesi, knúinn rafmagni frá HS Orku. Nýtist hljóðmælingin í borverkefnum þar sem viðkomandi jarðbor er notaður og því hægt að gefa til kynna hljóðstig við borstað og í nágrenni hans af meiri nákvæmni en áður. Umtalsverð jákvæð umhverfisáhrif eru af nýtingu rafmagns til borana, umfram hina hefðbundnu leið, að nota díselvélar.

    Niðurdælingarlögn Reykjanesi

    Niðurdælingarlögnin mun flytja jarðhitavökva frá Orkuverinu á Reykjanesi að niðurdælingarholu nærri orkuverinu. Tilboðsferli í gerð undirstaða og lagnavinnu lauk í byrjun árs og veitti Reykjanesbær framkvæmdaleyfi fyrir lögninni. Áður hafði verið samið við Set um kaup og afhendingu á pípum og lagnabúnaði eftir útboð. Vinna við lögnina var unnin á árinu 2015 og lögnin tekin í notkun snemma árs 2016.

    Rammaáætlun

    Gögnum um virkjunarkosti HS Orku var skilað til Orkustofnunar í byrjun árs, þ. á m. afmörkun á rannsóknarsvæðum hvers virkjunarkosts vegna 3. áfanga rammaáætlunar. Fulltrúum rammaáætlunar voru kynntar rannsóknir á virkjunarkostum HS Orku sem flokkaðir voru í biðflokk í rammaáætlun 2. Vettvangsferð var farin með faghópum rammaáætlunar um þau landsvæði þar sem virkjunarkostirnir hafa verið skilgreindir og var sérstaklega staldrað við svæðin sem hýsa virkjunarkostina í biðflokki, Austurengjar og Trölladyngju á Krýsuvíkursvæðinu. Verkefnisstjórn tók ákvörðun um að virkjunarkostir HS Orku í nýtingarflokki rammaáætlunar 2 yrðu ekki teknir til endurmats og eru þeir því með þá flokkun áfram.

    Eldvörp – rannsóknarboranir

    Eldvörp
    Mat á umhverfisáhrifum rannsóknarborana var lokið með útgáfu matsskýrslu í september árið 2014 og hófst þá ferill deiliskipulags fyrir borteiga og vegslóða sem lauk með staðfestingu þess á árinu. Í kjölfarið samþykkti Grindavíkurbær framkvæmdaleyfi fyrir boranirnar en samhliða umsókn um framkvæmdaleyfi voru gerðar viðmiðunarreglur fyrir borverk. Gefin voru út tvenns lags reglusett sem birt voru með umsókn um rannsóknarleyfi. Annað fjallar um fráveitu á meðan á borun stendur og við prófanir á holu og hitt fjallar um hönnun borteiga og frágang þeirra. Verða viðmiðunarreglurnar þróaðar áfram að fenginni reynslu í framkvæmd.

    Brúarvirkjun

    Brúarvirkjun
    Í upphafi árs var lokið við alla samninga við landeigendur og vatnsréttarhafa við þann hluta Tungufljóts í Biskupstungum sem Brúarvirkjun nýtir. Hófst þá markviss undirbúningur að verkefninu, voru rennslismælingar efldar á vordögum, undirbúningur hafinn að skilgreiningu í aðalskipulagi sveitarfélagins, Bláskógarbyggðar, 1 m hæðalínu kort var gert af svæðinu og rannsóknir settar í faglegan farveg. Ákveðið var að meta áhrif virkjunar á umhverfi eins og um stóran virkjunarkost væri að ræða enda metnaður HS Orku að vanda málsmeðferð og umfjöllun um virkjunarkostinn eins og frekast er unnt. Hófst matsferlið í byrjun sumars og var matsáætlun lögð fram að hausti. Öllum rannsóknum var lokið á tímabilinu frá vori fram á haust og bárust síðustu skýrslur um áramótin. Drög að frummatsskýrslu voru tilbúin til skoðunar í lok ársins.

    Á grundvelli allra mælinga á rennsli var nýr rennslislykill ákvarðaður og bendir allt til þess að framleiðslan geti orðið meiri en áætlað var í forathugun verkefnisins. Sömuleiðis benda umhverfisrannsóknir til þess að áhrif Brúarvirkjunar á umhverfi verði ásættanleg ef farið er að með gát. Forhönnun var endurskoðuð og gerðar breytingar á staðsetningu stíflu, legu þrýstipípu og ákveðið að hafa tvær Francis-vélar í stöðvarhúsi í stað einnar. Eftir endurskoðunina var gefin út frumhönnunarskýrsla. Hagkvæmni Brúarvirkjunar verður metin að afloknu umhverfismati.

    Allt bendir til þess að hentugast verði að tengja virkjunina með jarðstreng í tengivirki Rarik í Reykholti, um 20 km leið frá virkjunarstað, en einnig er hugsanlegt að tengja virkjunina við tengivirki Landsnets við Flúðir, sem er um 5 km lengri leið.

    Ákveðið var á samráðfundi með fulltrúum Bláskógarbyggðar að vinna að skipulagi fyrir virkjun færi fram samhliða endurskoðun sveitarfélagsins á aðalskipulaginu. Er svæði undir virkjun meðal þess sem er skilgreint og kynnt í nýju aðalskipulagi. Gert er ráð fyrir að endurnýjun skipulags taki gildi á seinni hluta ársins 2016.

    Stóra Sandvík

    Stóra Sandvík
    Á árinu var unnið að gerð samnings um nýtingu auðlinda og leigu á landi við landeigendur Kalmannstjarnar og Junkaragerðis. Um mitt sumar varð sátt milli aðila um að HS Orka aflaði formlegs rannsóknarleyfis og eftir athugun Orkustofnunar var leyfi til rannsókna gefið út á haustdögum og munu rannsóknir standa yfir næstu ár. Í lok ársins var samningur um aðgengi að landi og einkarétt til nýtingar fullmótaður og bíður nú staðfestingar. Áður hafði verið samið við sömu landeigendur um kaup á landi og auðlindanýtingu fyrir Reykjanesvirkjun og er litið til nýs svæðis til frekari uppbyggingar jarðhitanýtingar á utanverðum Reykjanesskaga.

    Umfangsmiklar viðnámsmælingar fóru fram á svæðinu á árinu. Voru þær meðhöndlaðar í sérhæfðum hugbúnaði Ísor sem túlkar niðurstöður í þrívídd en það veitir betri upplýsingar en tvívíðar túlkanir. Mælingarnar gefa vísbendingar um háhitasvæði sem verðugt er að rannsaka frekar eins og ætlunin er á næstu árum. Svæðið er óvenjulegt að því leyti að engin eða mjög lítil yfirborðsvirkni er á svæðinu og auðkenni jarðhita á yfirborði eru ekki sjáanleg.

    Krýsuvík

    Krýsuvík
    Áfram var unnið að rannsóknum á Krýsuvíkursvæðinu og þá sérstaklega að náttúrufarsrannsóknum á þeim svæðum sem skilgreind hafa verið fyrir þá virkjunarkosti sem var raðað í biðflokk í rammaáætlun 2. Rannsóknarniðurstöður voru síðan afhentar viðkomandi faghóp rammaáætlunar.

    Skilgreint virkjunarsvæði við Sveifluháls hefur sérstöðu af fjórum undirsvæðum Krýsuvíkursvæðisins þar sem borsvæði er skilgreint í gildandi aðalskipulagi og deiliskipulag hefur verið í gildi síðan árið 2010. Fékkst framkvæmdaleyfi fyrir borun djúpra rannsóknarhola seint á árinu 2011 en sökum þess að ekki hafa náðst samningar við landeiganda um auðlindanýtingu og landnotkun hafa enn ekki skapast skilyrði til framkvæmda. 

    Hugmyndir HS Orku um auðlindanýtingu á svæðinu hafa alla tíð snúist um fjölþætta uppbyggingu þar sem flétta má saman vinnslu á jarðhita og ferskvatni og nýtingu á öllum straumum sem vinnslan getur boðið upp á svipað og gert er í Auðlindagarðinum við virkjanir fyrirtækisins í Svartsengi og á Reykjanesi. Hafa samningaumleitanir staðið yfir við land- og auðlindaeiganda um langt skeið án þess að lokaniðurstaða hafi náðst. Framkvæmdaleyfið hefur verið framlengt árlega þessi ár í kjölfar umsóknar HS Orku en bíður nú afgreiðslu skipulagsyfirvalda, sem einnig er landeigandi, eftir síðustu umsókn um framlengingu.

    Ekki var ráðist í frekari rannsóknir á eða við Sandfell enda er litið á svæðið sem hliðarsvæði sem byggt yrði upp samhliða annarri nýtingu á Krýsuvíkursvæðinu. Endurnýjun rannsóknarleyfis fyrir Krýsuvíkursvæðið er nú til skoðunar hjá Orkustofnun.

    Vindorka

    Vindorka
    Lokið var við að kortleggja vindstyrk á Reykjanesskaganum og forathugun gerð á álitlegum svæðum til vindorkunýtingar m.t.t. vindstyrks og landnýtingar. Einnig voru aðrir möguleikar á vindorkunýtingu til skoðunar og verður unnið áfram að þeim verkefnum.

    Suðurorka ehf. – Búlandsvirkjun

    Búlandsvirkjun
    HS Orka er helmingseigandi að Suðurorku ásamt ÍOV ehf. Félagið var stofnað til að vinna að virkjunarkostinum Búlandsvirkjun í Skaftártungu og hefur verið starfrækt frá árinu 2009. Áfram var unnið að samningagerð við landeigendur og vatnsréttarhafa Búlandsvirkjunar og var stofnað til samráðs við heimamenn í ríkari mæli en áður hefur tíðkast í sambærilegum verkefnum. Á meðan var beðið með að afhenda frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar. Öllum rannsóknum sem ákveðið var að ráðast í er lokið, þar á meðal athugun á viðhorfi ferðaþjónustu- og útivistaraðila sem á þótti skorta þegar virkjunarkosturinn var til meðferðar í rammaáætlun 2. Viss þáttaskil urðu í samningsvinnunni um áramótin og hefur verið tekin ákvörðun um að halda matsferlinu áfram og klára matsferilinn áður en lengra verður haldið. Verður samningaumleitunum gerð skil í matsskýrslunni.

    VesturVerk ehf. – Hvalárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun

    Hvalárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun
    VesturVerk ehf., sem HS Orka á rúmlega helmingshlut í, stjórnar verkefnaúrvinnslu vegna Hvalárvirkjunar og Skúfnavatnavirkjunar. Fyrirtækið er með starfsstöð á Ísafirði. Rannsóknarleyfi fékkst á vordögum fyrir athugun á virkjun Hvalár í Ófeigsfirði (Hvalárvirkjun) og virkjun Þverár og að hluta Hvannadalsár, Skúfnavatnavirkjun. Hófst þá þegar undirbúningur að vinnu við mat á umhverfisáhrifum virkjunarframkvæmda fyrir Hvalárvirkjun og umhverfisrannsóknum og rannsóknum á rennsli og snjósöfnun á Ófeigsfjarðarheiði en heiðin er aðalvatnssvið Hvalárvirkjunar og að hluta til Skúfnavatnavirkjunar. Komið var fyrir aðstöðu á Ófeigsfjarðarheiði seint að vori þegar tveir gámar voru fluttir upp á heiðina en þar skapa þeir starfsaðstöðu fyrir rannsóknaraðila. Um haustið voru settir upp rennslismælar á lykilstöðum á vatnasviðum virkjunarkostanna auk veðurstöðvar.

    Unnið var ötullega að málum er snerta tengingar Hvalárvirkjunar og virkjana sem áformaðar eru við innanvert Ísafjarðardjúp við flutningskerfi raforku. Hafa hugmyndir VesturVerks og áherslur heimamanna hlotið góðan hljómgrunn. Fundað hefur verið með fulltrúum Landsnets, stjórnvalda, hlutaðeigandi sveitarfélaga, Vegagerðar og öðrum sem láta sig málið varða. Verður áfram unnið að þessu mikla hagsmunamáli sem gengur út á það að auka afhendingaröryggi í byggðum við Ísafjarðardjúp og í Árneshreppi og um leið greiða fyrir nýtingarmöguleikum vatnsafls á svæðinu auk þess að styrkja grunnkerfi samfélaga á svæðinu t.d. með aukinni vegagerð, styrkingu vegsambanda, lagningu ljósleiðara og aukinna umsvifa á meðan á framkvæmdum stendur. 

     

    Framkvæmdir.jpg

    Framkvæmdir

    Rík áhersla á öryggi

    Við verklegar framkvæmdir leggur HS Orka ríka áherslu á öryggi allra sem að verkefnum koma. Áhættumat er framkvæmt áður en verk hefst og allir áhættuþættir eru kynntir rækilega fyrir öllum starfsmönnum verktaka, HS Orku og ráðgjafa sem að verkinu koma. Vandlega er fylgst með að öryggisbúnaður sé notaður og hann sé ávallt í góðu ásigkomulagi. Vel er gætt að merkingum og nauðsynlegum lokunum, þannig að almennri umferð og ferðamönnum stafi ekki hætta af framkvæmdunum. Gestir sem heimsækja framkvæmdasvæði fá öryggiskynningu, viðeigandi öryggisbúnað og er fylgt um athafnasvæðið.

    Framkvæmdir HS Orku fara oftar en ekki fram í viðkvæmri náttúru og eru kröfur til verktaka í samræmi við það. Þess er gætt að athafnasvæði séu vel afmörkuð og umferð utan vega og svæða er bönnuð. Þess er vandlega gætt að umgengni sé til fyrirmyndar, öll óhöpp tilkynnt og lagfæringar unnar í samráði við viðkomandi eftirlitsaðila. Þá er sérstök áhersla lögð á fyrirmyndarfrágang í verklok.

    Gæðastjórnunarkerfi bæði HS Orku og viðkomandi verktaka eru nýtt við verklegar framkvæmdir. Slík kerfi tryggja vandaðan undirbúning og eru ómetanleg við að tryggja framgang verkefna þar sem leitast er við að tryggja rétt gæði og að verk séu unnin á tilsettum tíma og innan kostnaðarramma.

    Sjávarlögn frá Svartsengi

    Sjávarlögn frá Svartsengi
    Framkvæmdir við lögn frá Svartsengi til sjávar var framhaldið á árinu. Áður hafði verið lögð ný niðurdælingarlögn frá Svartsengi að niðurdælingarsvæðinu við Þorbjarnarfell. Samið var við ÍAV eftir útboð um jarðvinnu og lögn DN 500 stofnlagnar frá niðurdælingarsvæði til sjávar í Arfdalsvík. Lögnin mun liggja um óslétt hraun en byggt verður upp um átta metra breitt vegstæði fyrir vinnuslóða og lögnina. Aðkoma að lögninni að norðan er um vinnuslóða að niðurdælingarsvæðinu en að sunnan um Nesveg sem liggur milli Grindavíkur og Hafna. 

    Jarðvinna hófst síðla árs en pípulögn mun hefjast í mars 2016 og verkinu ljúka í júlí 2016. Sumarið 2015 var nýtt til að leggja sjálfa útrásina 20 m út fyrir meðalstórstraumsfjöru. Um er að ræða 140 m langa plasthúðaða DN 600 stálpípu sem lögð var í skurð, fest með bergteinum og síðan steypt yfir með sérstakri neðansjávarsteypu. Verkið var töluvert vandasamt. Um stórgrýtisfjöru var að fara og mikill hluti lagnarinnar var nánast alltaf á kafi í sjó og öldugangur þó nokkur. 

    Því er skemmst frá að segja að verkið tókst mjög vel og er það að þakka vönduðum undirbúningi, öflugum tækjum og reyndum starfsmönnum verktakans LNS Saga, sem samið var við um verkið eftir útboð. Þá hefur í framhaldi af útboði verið samið við HH verktaka um byggingu lokahúss sem staðsett verður á sjávarkambinum við Arfadalsvík og eru framkvæmdir nýhafnar. Við staðsetningu og hönnun var sérstaklega hugað að því að mannvirki væru lítt sýnileg og færu vel í landslagi.

    Framkvæmdir í Svartsengi

    Aukin gufuöflun í Svartsengi
    Í Svartsengi var ákveðið að hefjast handa við aukna gufuöflun eftir nokkurt hlé. Boruð var djúp háhitahola SV 25, staðsett á stækkuðu plani eldri holu númer 11. SV 25 var stefnuboruð til suðurs í átt að misgengjum undir Þorbirni. Holan varð ríflega 2.000 metra djúp og gefa vísbendingar í borun og nýleg hitamæling til kynna að holan muni reynast öflug vinnsluhola. Undirbúningur að tengingu holunnar við orkuverið í Svartsengi er hafinn. 

    Í lok árs var síðan hafin borun rannsóknarholu SV 26, staðsett á stækkuðu plani eldri holu númer 18. SV 26 er stefnuboruð til austurs í því markmiði að kanna svæðið austan Grindavíkurvegar, undir hlíðum Sýrlingafells. Jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir sem ÍSOR hefur framkvæmt fyrir HS Orku gefa til kynna að svæðið geti verið álitlegt, en áðurnefnd borun mun sannreyna hvort svo sé. Gangi það eftir mun nýtingarsvæði orkuversins í Svartsengi stækka til muna. Það eru sem fyrr Jarðboranir hf. með rafknúna jarðborinn Þór, stærsta bor landsins, ásamt mjög reyndri áhöfn sem bora þessar djúpu og vandasömu holur.

    Jarðboranir

    Loft dregið úr hrauni

    Undanfarin ár hefur HS Orka í samstarfi við Verkís þróað hugmynd Alberts Albertssonar um að draga hreint loft úr grunnum borholum, þ.e. nýta hraunið sem nokkurs konar síu. Boruð var hola á Reykjanesi sem hefur verið vöktuð í þrjú ár og er loftið svo hreint að það hentar jafnvel til notkunar á skurðstofu. Því var ákveðið að bora samskonar holu við starfsmannahús í Svartsengi. Hugmyndin er að loftræsa það hús reynist loftið í hrauninu álíka hreint og á Reykjanesi. Fyrstu niðurstöður mælinga benda til að loftið sé mjög hreint en meiri hiti og raki sé í hrauninu við starfsmannahúsið, því verður að þurrka loftið áður en það er nýtt. Eftir frekari mælingar og úrbætur er stefnt að því að tengja holuna inn í hús á árinu 2016.

    Niðurdæling

    Niðurdæling á Reykjanesi

    100 kg/s

    Á árinu var unnið af kappi að niðurdælingarverkefninu á Reykjanesi. Áður hafði verið boruð ríflega 2.000 metra stefnuboruð niðurdælingarhola til suðurs við Sýrfell, hola RN 33. RN 33 hefur verið prófuð og er hæfileg niðurdæling talin vera ríflega 100 kg/sek til lengri tíma. Í upphafi árs var síðan stefnuboruð ríflega 2.500 metra niðurdælingarhola til norðvesturs frá sama borplani við Sýrfell, hola RN 34. Prófunum er ekki að fullu lokið, en að búast má við að hæfileg niðurdæling í holu RN 34 til lengri tíma verði á bilinu 80-120 kg/sek. Samhliða borun voru framkvæmdir við 500 mm niðurdælingalögn úr stáli boðnar út. Samið var við Ellert Skúlason um jarðvinnu og Framtak um pípulögn og tengingar. Verkinu er nú að ljúka og prófanir og niðurdæling á næsta leyti. Niðurdælingarvökvinn er u.þ.b. 75% jarðsjór og 25% þéttivatn.

    Nýting lágþrýstigufu á Reykjanesi

    Unnið hefur verið að tilraunum með að nýta ónýtta lágþrýstigufu á Reykjanesi til framleiðslu á heitu vatni. Tilraunir í minni kvarða lofa góðu og verður haldið áfram í stærri kvarða á árinu 2016. Markmiðið er að tengja fiskþurrkunarfyrirtækin á Reykjanesi við hitaveitu, en þau eru nú að nýta háþrýstigufu sem betur mætti nýta í orkuverinu til raforkuframleiðslu.

    Aukin nýting jarðgufu á Reykjanesi

    Til undirbúnings fyrir fyrirhugaða lágþrýstivél á Reykjanesi hafa farið fram umfangsmiklar skiljutilraunir. Lágþrýstivél er ætlað að nýta jarðsjó á lægri þrýstingi sem nú er ekki nýttur. Vegna gríðarlegra útfellinga í jarðsjó á lægri þrýstingi og hitastigi er nýting þessa vökva sérlega vandasöm. Tilraunir hafa verið gerðar í kvarðanum 1:10 miðað við fyrirhugað orkuver og hefur nú tekist að leysa öll tæknileg vandamál, þar sem vökvinn sýður við 5 bara þrýsting og aftur við ríflega 1 bara. Tilraunirnar hafa sýnt að gufan sem verður til er nægilega hrein fyrir vélina og aflið áætlað 20-30 MW í rafmagnsframleiðslu.

    Lokun borholu í Krýsuvík

    HS Orka á og rekur borholu í Krýsuvík sem nýtt hefur verið til hitunar meðferðarheimilis Krýsuvíkursamtakanna. Nú er svo komið að sérfræðingar HS Orku telja að holan sé ekki lengur nægilega örugg, gat er á holutoppi þar sem gufa streymir út við 14 bara þrýsting. Því var ákveðið að holunni skuli lokað og húshitun í Krýsuvík verði með rafmagni, en háspennustrengur var lagður í Krýsuvík árið 2014 í samstarfi HS Orku og HS Veitna. Uppsetningu á hitatúpu ásamt nauðsynlegum lögnum lauk síðastliðið haust. Í framhaldi var hafist handa við að loka holunni til frambúðar, sem er sérlega vandasamt verkefni. Ekki tókst lokun í fyrstu atlögu, gamla hitaveitulögnin sem nýta átti til ádælingar gaf sig. Ákveðið var að bíða með frekari aðgerðir þar til mestu vertaraðstæður eru yfirstaðnar, þá hefst verkið að nýju.

    Varaafl sett upp í höfuðstöðvum HS Orku

    Á árinu var komið upp varaafli, díselrafstöð, á skrifstofunni á Brekkustíg. Rafstöðin ræsist sjálfkrafa fari svo að rafmagn fari af svæðinu og fer þá starfsemi á skrifstofum HS Orku og HS Veitna fram með eðlilegum hætti þrátt fyrir vandamál á landsnetinu, sem er mikilvægt ef rafmagnsleysi er samfara vá af einhverju tagi.

    Rauntímagögn um borupplýsingar

    Upplýsingatækni nýtist í verklegum framkvæmdum, bæði til að auðvelda og tryggja upplýsingaflæði og tryggja gæði. Verkefnavefir eru nýttir þar sem hönnunargögn, verklýsingar og öll gögn sem verða til við framkvæmd verks eru aðgengileg þeim sem að verkinu koma, hvar og hvenær sem er. Við borframkvæmdir á háhitasvæðum sem fara fram allan sólarhringinn alla daga, hafa sérfræðingar og stjórnendur HS Orku vefaðgang í rauntíma að öllum borupplýsingum, eins og þeir væru sjálfir staddir á borstað.

    Vöktun jarðhitakerfa

    HS Orka vaktar vandlega þær jarðhitaauðlindir sem félaginu er treyst fyrir. Fylgst er náið með jarðhitakerfunum sem og jarðhitavinnslunni. ÍSOR fylgist reglulega fyrir HS Orku með hitastigi og þrýstingi í borholum, efnainnihaldi og hugsanlegum breytingum, vermi jarðhitavökvans, gufugæðum, jarðskjálftum og sigi. Verkfræðistofan Vatnaskil rekur umfangsmikið reiknilíkan fyrir HS Orku í hugbúnaði sem kallast Tough2. Reiknilíkanið hermir hegðun jarðhitakerfanna á Reykjanesskaga og spáir fyrir um þróun til lengri tíma. Á hverju ári er bætt við nýjum upplýsingum sem auka nákvæmni reikningana. Allar þessar upplýsingar eru síðan metnar af sérfræðingum HS Orku, þar sem áhrif vinnslunnar eru metin til lengri tíma og ákvarðanir teknar sem miða að því að vinnslan sé að fullu sjálfbær.

    Rannsóknir í Eldvörpum
    Á árinu var framhaldið umfangsmiklum jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum í Eldvörpum. Nýjum viðnámsmælingum var bætt við og niðurstöður túlkaðar í þrívíðum hugbúnaði sem sérfræðingar ÍSOR hafa þróað. Öll gögn sem til eru um Eldvörp hafa verið sett í þrívítt líkan í hugbúnaði sem kallast Petrel, þar sem sérfræðingar ÍSOR og HS Orku geta borið saman mismunandi gögn og fengið yfirsýn yfir niðurstöður hinna ýmsu rannsókna. Niðurstaða liggur fyrir þar sem markmið fyrirhugaðra rannsóknarborana hafa verið skýrt afmörkuð, líkur á árangri mismunandi borana metin og heildaryfirsýn tryggð. Þá var áðurnefnt reiknilíkan Vatnaskila nýtt til að herma væntanleg áhrif fyrirhugaðrar vinnslu í Eldvörpum á Eldvarpasvæðið sem og Svartsengi, en velþekkt er að svæðin eru tengd.


    Rannsóknir - Header

    Rannsóknar­verkefni

    Rannsóknar- og þróunarverkefni

    HS Orka tekur þátt í ýmsum rannsóknar og þróunarverkefnum. Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) hélt áfram undirbúningi fyrir djúpborun á Reykjanesi og var dýpkun holu RN-15 skoðuð áfram í þeim tilgangi. Viðræður við norska olíufyrirtækið Statoil Petroleum AS um að ganga aftur til liðs við IDDP héldu áfram fram eftir árinu. Þann 12. nóvember 2015 var undirritaður samningur við IDDP til fimm ára um þátttöku á dýpkun holu RN-15 (holu IDDP-2) niður í 5 km dýpi. Sama dag var jafnframt undirritaður sérsamningur við HS Orku um þátttöku Statoil í kostnaði við borun og fóðringu efri hluta RN-15 niður í 3,5 km dýpi. Á haustmánuðum varð jafnframt ljóst að styrkumsókn HS Orku o.fl. til Horizon 2020 orkuáætlunar Evrópusambandsins yrði samþykkt og var samningur þar um undirritaður um miðjan desember. Verkefnið er nefnt DEEPEGS og snýst m.a. um þátttöku í borun, rannsóknum og tilraunum á holu IDDP-2 á Reykjanesi. Verkefnið hóst formlega 1. desember 2015 og stendur yfir í fjögur ár. Fyrirhugað er að hefja borframkvæmdir IDDP-2 um mitt sumar 2016 og ætti boruninni að ljúka sama ár.

    Jarðskjálfta­mælar á landi

    30 mælar

    Jarðskjálfta­mælar á hafsbotni

    24 mælar


    IMAGE og ESB

    HS Orka er aðili að fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni (IMAGE) sem styrkt er af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins og lýkur því 2016. Tilgangur þess er að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka djúpar rætur jarðhitakerfa og er Reykjanesið eitt af þremur háhitasvæðum sem skoðað er sérstaklega. Þar voru settir niður um 30 nákvæmir jarðskjálftamælar á landi og 24 mælum komið fyrir á hafsbotni umhverfis Reykjanesið. Alls voru því um 84 skjálftamælar að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum á vinnslusvæðum HS Orku fram á haustmánuði 2015. Niðurstaðna er að vænta á næstu tveimur árum og tengjast óhjákvæmilega væntanlegri borun IDDP-2.

    Fylgst með jarðskorpuhreyfingum

    Jarðskjálftamælar alls

    84 mælar

    Á árinu tók HS Orka auk þess þátt í gerð tveggja annarra ESB-umsókna í Horizon 2020 ESB orkuáætluninni, GEOWELL og PRESCO, og var sú fyrrnefnda samþykkt. GEOWELL miðar að bættri tækni við boranir og vinnslu háhitasvæða og hefst árið 2016. HS Orka tekur jafnframt þátt í og styrkir íslensk rannsóknarverkefni innan GEORG í samvinnu við innlendar og erlendar stofnanir og miða þau öll að auknum skilningi á djúpum rótum háhitakerfa og bættri nýtingu háhitasvæðanna.

     

    Fjara

    Umhverfismál

    Leiðandi í umhverfismálum 

    HS Orka leitast eftir því að vera leiðandi í umhverfismálum og vinnur stöðugt að umbótum og nýjum tækifærum til að lágmarka áhrif á umhverfið frá starfsemi sinni. Á haustmánuðum skrifaði HS Orka undir loftslagsyfirlýsingu Festu sem felur í sér skuldbindingu til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og minnka myndun úrgangs. HS Orka vinnur nú að markmiðasetningu og kemur til með að birta markmið sín fyrir mitt ár 2016. 

    Málmríkar útfellingar 

    Árið 2015 komu upp nýjar áskoranir í umhverfismálum þegar mælingar staðfestu áður óþekktan umhverfisþátt tengdan jarðvarmanýtingu á Reykjanesi. Eftir að vinnsla hófst á Reykjanesi árið 2006 varð fljótlega vart við uppsöfnun málmríkra útfellinga við holutopp vinnsluholna. Rannsóknir hafa sýnt að útfellingarnar innihalda ýmsa góðmálma s.s. blý, sink, gull og silfur. Nýjar mælingar hafa nú staðfest að útfellingarnar gefa að auki frá sér aukna náttúrulega alfa- og betageislun, sem rekja má til styrkaukningar á geislavirku blýi og póloníumi. Um er að ræða mjög staðbundna uppsöfnun í lögnum við holutoppa Reykjanesvirkjunar, en mælingar hafa jafnframt staðfest að slík uppsöfnun á sér ekki stað við virkjun fyrirtækisins í Svartsengi. Er þetta í fyrsta skipti sem geislun af þessu tagi hefur mælst á Íslandi þó hún sé vel þekkt viðfangsefni í tengslum við námuvinnslu sem og olíu- og gasvinnslu víða erlendis. 

    Alfa- og betageislar eru mjög skammdrægir, geislunin er það skammdræg að fólk verður ekki fyrir geislun frá útfellingunum þótt það standi mjög nærri þeim. Það er mat Geislavarna ríkisins að geislun frá þessum útfellingum sé svo lítil að mönnum, dýrum og umhverfi stafi ekki hætta af. Útfellingar eru hreinsaðar úr lögnum einu sinni á ári, þeim er safnað saman og þær geymdar á viðeigandi hátt í samræmi við leiðbeiningar frá Geislavörnum Ríkisins. 

    Ábyrg nýting

    HS Orka vinnur nú með Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands að rannsóknum til að auka skilning og þekkingu á geisluninni í útfellingunum sem myndast við vinnslu úr jarðhitakerfinu á Reykjanesi. Umfangsmikil rannsókn stendur nú yfir á útfellingunum sjálfum sem og jarðhitavökvanum, niðurstöður þessara mælinga verða nýttar til að skýra á magnbundinn hátt hvað veldur uppsöfnun á geislavirkum efnum í útfellingum á Reykjanesi.

    Starfsmannahald

    Mannauður

    Árið 2015 var fyrsta starfsárið eftir að formleg skipting á starfsmönnum varð á milli HS Orku og HS Veitna. Á árinu létu tveir starfsmenn af störfum og voru ráðnir starfsmenn í þeirra stað en einnig var ráðið í þrjú ný stöðugildi.

    Í Svartsengi bættust við tveir nýir starfsmenn, einn aðstoðarmaður í viðhald og einn á stjórnbúnaðarsvið, tveir létu af störfum vegna aldurs; einn aðstoðarmaður úr viðhaldshóp og einn af stjórnbúnaðarsviði. 

    Petra Lind Einarsdóttir, Mannauðs- og skrifstofustjóri - Aðalstöðvar HS Orku á Brekkustíg

    Á aðalskrifstofunni Brekkustíg bættust við lögfræðingur, sérfræðingur í jarðefnafræði og sérfræðingur í endurnýjanlegri orku.

    Samkvæmt þjónustusamningi við HS Veitur kaupir HS Orka m.a. þjónustu á sviði upplýsingatækni, þjónustu og viðhaldi fasteigna. HS Orka selur þjónustu til HS Veitna á sviði fjármála-, starfsmanna-, gæða- og öryggismála.

    Mannauður

    Piecharts

    Starfsmenn HS Orku í árslok voru 58 alls. Að meðtalinni stjórn, sumarstarfsmönnum og lausráðnum fengu 70 starfsmenn greidd laun árið 2015.

    HS Orka starfsmannafjöldi 

    58 starfsmenn
    Gaedamal.jpg

    Gæðamál

    Á undanförnum árum hefur verið lögð mikil vinna í uppbyggingu og innleiðingu á gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001. Á fyrstu mánuðum ársins 2015 fór mikil vinna í að ljúka við að uppfylla þær kröfur ISO 9001 sem eftir stóðu svo hægt væri að hefja vottunarferli. Í júní hófst vottunarferlið með fyrstu vottunarúttekt. Sú úttekt gekk vel en enn átti eftir að klára að framkvæma innri úttektir á nokkrum verklagsreglum og ferlum og því ákveðið að taka seinni vottunarúttekt í byrjun október 2015. Í nóvember 2015 fékkst það svo staðfest hjá BSI (British Standards Institution) að HS Orka uppfyllir allar kröfur staðalsins og hlaut því ISO 9001 vottun. 

     

    Kristín Birna Ingadóttir Gæðastjóri


    Vottun 2015

    ISO 14001

    Í kjölfar vottunar á ISO 9001 var ákveðið að fara í stöðumat á ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðli og OHSAS 18001 öryggisstjórnunarstaðli. Stöðumatið, sem fram fór í byrjun desember, kom vel út og er stefnt að frekari vottunum á þessum stöðlum á næsta ári.

    Gæðastjórnunarkerfi

    Að byggja upp, innleiða og reka gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001 er stórt verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins. Skuldbinding stjórnenda er mjög mikilvæg sem og þátttaka starfsfólks. Ávinningur gæðastjórnunarkerfisins er að koma betur í ljós sem sést í daglegum störfum allra starfsmanna sem leggja sig fram við að gera sífellt betur og tryggja þannig stöðugar umbætur. Gæðamenning innan fyrirtækisins hefur aukist til muna og á eftir að gera enn frekar.

    vidhald_mynd1.jpg

    Öryggis- og heilbrigðismál

    Unnið var að margvíslegum öryggis- og heilbrigðismálum (ÖH-málum) á síðasta starfsári. Mánaðarlegir öryggisfundir voru haldnir með starfsmönnum auk funda og kynninga þar sem m.a. var farið yfir öryggismál almennt, s.s. slysatíðni, árstíðabundin verkefni og áhættumat í aðdraganda viðhaldsverkefna. Nokkur námskeið til að auka réttindi og skilning starfsmanna á öryggismálum voru haldin á árinu. Frummælendur voru ýmist starfsmenn HS Orku, starfsmenn VER eða sérfræðingar úr atvinnulífinu. Má þar nefna t.d. námskeið um brúkranaréttindi fyrir starfsmenn sem stjórna brúkrönum og námskeið um hættur af völdum ljósboga og varnir gegn þeim, fyrir starfsmenn sem koma að vinnu í háspennurýmum. Í framhaldi af því námskeiði var keyptur sérstakur hlífðarbúnaður til nota við hreyfingar á skilgreindum rofum og rafbúnaði.

    Öryggis- og heilbrigðismál

    Lokið var við að merkja vinnusvæði og vinnuvegi HS Orku. Enn er unnið eftir áætlun sem miðar að því að setja hlið á aðkomuvegi að orkuverunum og öðrum vinnusvæðum. Þetta er gert til að tryggja öryggi starfsmanna og til að vara almenning við hugsanlegum hættum á svæðum fyrirtækisins.

    Öryggisnefndin kom reglulega saman og voru haldnir fjórir bókaðir fundir á árinu auk smærri funda.

    Forvarnarverðlaun VÍS

    Í byrjun árs 2015 hlaut HS Orka Forvarnarverðlaun VÍS sem afhent voru á forvarnarráðstefnunni Engar afsakanir í öryggismálum sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica í febrúar. Forvarnarverðlaun VÍS eru veitt fyrir framúrskarandi forvarnir og öryggismál. Ásgeir Margeirsson forstjóri tók við verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins.

    Reynt að tryggja öryggi starfsmanna

    Starfsmenn eru hvattir til að tilkynna strax ef þeir verða fyrir slysi- og/eða atviki í vinnu hjá HS Orku. Starfsmenn geta skráð á einfaldan hátt inn í gagnagrunn þau slys eða atvik sem verða. Markmið þessara skráninga er að tryggja að slys eða óhöpp endurtaki sig ekki, að gera vinnustaðinn öruggari og tryggja að upplýsingum um slys og óhöpp sé komið til þeirra aðila sem ber að tilkynna til. 

    Slysa- og atvikaskráning

    Haldin er skrá yfir slys og atvik sem verða hjá HS Orku. Slysum og atvikum er skipt upp í þrjá flokka eftir alvarleika og fjarveru frá vinnustað.

    Slys verktaka

    Slys og atvik eftir svæðum

    • Atvik/slys án fjarveru
    • Slys með 1-7 daga fjarveru
    • Alvarlegt slys með fleiri en 7 daga fjarveru

    Samtals voru 44 slys/atvik skráð árið 2015 vegna starfsemi HS Orku. Í sjö tilvikum voru starfsmenn HS Orku aðilar máls en 37 slys/atvik voru tilkynnt af verktökum sem vinna fyrir fyrirtækið.

    Nánari flokkun slysa/atvika starfsmanna HS Orku:

    • 3 fjarveruslys með samtals 35 töpuðum dögum
    • Þrjú fyrstuhjálparslys
    • Eitt atvik – skemmdir á búnaði.

    Tíðni fjarveruslysa er miðuð við alþjóðlega staðla þar sem er borin er saman tíðni vinnuslysa miðað við 100 ársverk eða 200.000. vinnustundir.

    Þrjú fjarveruslys

    Þrjú fjarveruslys urðu hjá HS Orku á árinu. Tíðni vinnutengdra fjarveruslysa hjá HS Orku fyrir árið 2015 er því 5,22. Til samanburðar varð ekkert fjarveruslys árið 2014, slysatíðni var því 0,00 það ár. Tvö fjarveruslys urðu starfsárið 2013 og tíðni vinnutengdra fjarveruslysa það ár var 2,96.

    Fylgst er með slysatíðni verktaka sem vinna á vegum HS Orku en verktökum er skylt að tilkynna slys til viðeigandi aðila. Samtals voru 37 slys/atvik tilkynnt.

    • 1 fjarveruslys – 14 tapaðir dagar
    • 8 fyrstuhjálparslys var tilkynnt.
    • 22 atvik – skemmdir á búnaði
    • 4 umferðaratvik
    • 1 hættulegar aðstæður
    • 1 umhverfisatvik.
    Upplýst orkuver

    Samfélagið

    HS Orka leggur mikla áherslu á þátttöku í samfélagslegum verkefnum. Á árinu 2015 eins og fyrri ár studdi fyrirtækið við bakið á ýmis konar menningar- og íþróttastarfsemi víðs vegar um landið þó flest verkefnanna hafi verið á Suðurnesjunum þar sem höfuðstöðvar og virkjanir fyrirtækisins eru staðsettar. Mikil áhersla er lögð á virka þátttöku í samfélaginu með stuðningi við fjölbreytt verkefni sem aðstoða við þá sem þurfa aðstoð eða bæta samfélagið og auðga.

    Fyrirtækið hefur tekið þátt í samstarfsverkefni samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi með stærstu fyrirtækjum svæðisins sem miðar að því að kynna svæðið og efla.

    HS Orka lýsti upp Ljósanóttina í Reykjanesbæ eins og fjögur síðustu ár en stórglæsileg flugeldasýning hátíðarinnar var styrkt af HS Orku. 

    Heimsoknir.jpg

    Heimsóknir

    Mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins er að fræða fólk um virkjun jarðhita og hugmyndafræðina um fjölnýtingu sem er grundvöllur Auðlindagarðsins og koma fjölmargir gestir á ári hverju í virkjanir fyrirtækisins í Svartsengi og á Reykjanesi.

    Sýningin Orkuverið jörð er staðsett í Reykjanesvirkjun og þar hefur gestum fjölgað ár frá ári frá því hún var opnuð formlega árið 2008. Þar er gagnvirk sýning sem fjallar um sólkerfið og mismunandi orkugjafa sem notaðir eru í heiminum.

    Alls tók rekstraraðili sýningarinnar á móti um 5.000 manns á síðasta ári.

    Fyrirtækið tekur sjálft á móti hópum sem eru í skyldri starfsemi, viðskiptavinum og nemendahópum víðs vegar að úr heiminum. Þá er fjöldinn allur af myndatökum og viðtölum sem starfsmenn sinna. Allt í þeim tilgangi að kynna svæðið og starfsemina.

    Áætla má að heildarfjöldi gesta, þ.e. gestir sem heimsóttu sýninguna Orkuverið jörð og gestir sem fyrirtækið tók sjálft á móti hafi verið 7.000-7.500 á árinu 2015.

    Fjöldi gesta árið 2015

    7.000 - 7.500
    Hverir

    Gönguferðir

    Áttunda árið í röð stóð HS Orka, í samstarfi við fleiri fyrirtæki á Suðurnesjum, fyrir verkefninu Reykjanes gönguferðir. Alls var boðið upp á 11 gönguferðir um Reykjanesið á tímabilinu júní-ágúst. Gengið var á miðvikudagskvöldum undir leiðsögn Rannveigar Garðarsdóttur leiðsögumanns.

    Um er að ræða léttar gönguferðir í bland við erfiðari og lengri gönguferðir í fagurri náttúru Reykjanesskagans. Í hverri göngu segir leiðsögumaður frá ýmsum fróðleik um nánasta umhverfi og í einhverjum göngum er fenginn gestaleiðsögumaður.

    11 gönguferðir á árinu 2015

    746 göngumenn
    starfsmannafelag-header.jpg

    Starfsmannafélagið

    Í byrjun árs var gerð umtalsverð breyting á starfsmannahaldi HS Orku er rúmlega 80 starfsmenn, sem sinnt höfðu verkefnum fyrir HS Veitur skv. þjónustusamningi, færðust yfir til HS Veitna. Í framhaldi af því var ákveðið að stofna starfsmannafélag HS Orku. Þann 30. september var boðað til stofnfundar nýs starfsmannafélags og mættu 26 starfsmenn HS Orku á fundinn. Kosið var um tillögur að lögum nýs félags og þær samþykktar samhljóða. Því næst var kosið í stjórn og voru kosin til stjórnar þau Egill Jóhannsson, Kristín Birna Ingadóttir, Matthías Örn Friðriksson og Páll Kristinsson. Tilgangur félagsins er að efla samvinnu, starfsanda og standa fyrir félagslífi starfsmanna HS Orku.

    Egill Jóhannsson
    nýr formaður

    Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var Egill kosinn formaður, Matthías var kosinn gjaldkeri og Kristín og Páll meðstjórnendur. Fyrsti viðburður félagsins var svo jólahlaðborð sem haldið var á Lava bar í Bláa lóninu og þótti takast einstaklega vel. Á árinu 2016 er svo stefnt að því að halda þó nokkra viðburði til að þjappa starfsmönnum saman. 

    Fjölbreytt starfssemi

    Auk þess sem starfsmannafélagið stendur fyrir er fjölmargt sem starfsmenn taka sér fyrir hendur utan vinnutíma. Á árinu tóku nokkrir starfsmenn HS Orku þátt í WOW Cyclothon keppninni þar sem hjólað var hringinn í kringum landið. Liðið var skipað 5 starfsmönnum frá HS Orku og 5 starfsmönnum frá HS Veitum. Á árinu 2016 er stefnt að því að senda lið til keppni sem eingöngu verður skipað starfsmönnum HS Orku. Keppnin er mikil þrekraun og reynir bæði á líkamlegt og andlegt atgervi keppenda. Þátttaka í keppni sem þessari eflir liðsheildina og þjappar fólki saman, bæði þeim sem eru þátttakendur en ekki síður öðrum starfsmönnum sem fylgjast spenntir með árangrinum og fagna með keppendum að keppni lokinni. 

    Golfklúbbur stofnaður

    Nokkrir starfsmenn fyrirtækisins hafa verið virkir í golfi og tekið þátt í mótaröð sem sameiginlegt starfsmannafélag HS Orku og HS Veitna stóð fyrir. Eftir uppskiptingu var ákveðið að stofna nýjan golfklúbb ótengdan starfsmannafélögum fyrirtækjanna sem starfsmenn HS Orku og HS Veitna geta tekið þátt í. Stefnt er að því að halda úti flottri mótaröð í sumar og þræða golfvelli landsins í vinalegri keppni. Þá hafa fyrirtækin í sameiningu haldið úti mótaröð með þremur öðrum fyrirtækjum og skipta fyrirtækin með sér að halda mót á milli ára. Sameiginlegt lið HS Orku og HS Veitna sigraði keppnina á síðasta ári og mun því hafa titil að verja þegar mótið verður haldið á haustmánuðum 2016. 

    Svartsengi

    Rafrænn ársreikningur

    HS Orka hefur hætt að gefa út prentaða ársskýrslu fyrirtækisins og hún þess í stað gefin út á netinu. Þetta er gert í takt við tíðarandann en ekki síst til að fylgja eftir stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum samfélaginu til heilla. 

    Sjálfan ársreikning félagsins er hægt að nálgast á pdf-sniði hér að neðan.